Iceland Glaciological Society - EISI

Jöklabreytingar á Íslandi

Einn tíundi hluti Íslands er hulinn jöklum í dag. Vegna hlýnunar loftslagsins hopa þeir hratt og hið sama er uppi á teningnum annars staðar á jörðinni. Rúmmálsrýrnun jökla í heiminum á fyrstu tveim áratugum 21. aldar er sú mesta í 2000 ár.

Síðan afkomumælingar hófust í kringum 1990 hefur vetrarafkoma jöklanna flest ár verið of lítil og sumarleysing of mikil til að jafnvægi þeirra haldist. Frá 2010 hefur aðeins hægst á rýrnuninni vegna lægra hitastigs sjávar umhverfis landið. Ársafkoma stóru jöklanna þriggja (Vatnajökli, Langjökli og Hofsjökli) hefur verið neikvæð öll árin frá aldamótum nema 2014–2015 (sjá nánar á www.islenskirjoklar.is).

Flestir jöklar á Íslandi tóku að hörfa frá ystu jökulgörðum um 1890 þegar kuldaskeiði sem kallast litla ísöld lauk. Ummerki um útbreiðslu jöklanna má sjá af jökulgörðum sem víða ná langt út á láglendi og hátt uppi í hlíðum fjalla. Heildarflatarmál jökla árið 2023 var um 10.100 km2 og minnkuðu því jöklarnir um meira en 2400 km2 frá um 1890, sem samsvarar 19% flatarmálsrýrnun. Jöklarnir hafa tapað um 1000 km2 frá aldamótunum 2000, sem samsvarar rúmlega einum Langjökli. Frá þeim tíma hafa jöklar á Íslandi hörfað hratt og rýrnun þeirra ein helsta afleiðing hlýnandi loftslags. Sumir skriðjöklar hafa örfað um tugi eða hundruði metra á ári og að meðaltali hefur flatarmál jökla minnkað um 40 km2 á ári.

Bláfellsjökull er lítill jökull norðan megin á Bláfelli á Kili, áberandi jökulgarðar teikna upp fyrrum mestu útbreiðslu hans á litlu ísöld . Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 9. ágúst 2010.

Horft til suðurs yfir Fúlukvíslarjökull í norðaustanverðum Langjökli, Hrútfell fyrir miðri mynd og Bláfell í fjarska. Myndarlegir jökulgarðar eru framan skriðjökulsins sem  Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, 14. september 2011.

Á þessu tímabili hafa margir litlir jöklar horfið með öllu eða eftir eru einungis leifar sem hættar eru að skríða undan eigin þunga. Hvarf Okjökuls hefur líklega vakið mesta athygli. Minnisvarði um þann jökul var settur upp á Okinu 18. ágúst 2019. Á Tröllaskaga og Flateyjarskaga eru horfnir 25 jöklar sem töldust nægilega merkilegir til þess að ganga undir eigin nafni, 26 á Austfjörðum, 9 nærri Vatnajökli, 8 í Kerlingarfjöllum, 2 nærri Langjökli og þrír á öðrum svæðum landsins. Flestir þessara jökla voru litlir, með flatarmál á bilinu 0,1–3 km2 í upphafi þessarar aldar.

    Jöklaútlínur sem sýna hörfun Skaftafellsjökuls frá 1890 til 2021 (til vinstri) og ljósmyndaröð frá 1996-2017. Kort: ÍslandDEM/Landmælingar Íslands/islenskirjoklar.is. Ljósmyndir: Colin Baxter/Kieran Baxter.

    Fjallsjökull and Fjallsárlón between 1988 and 2021. Photos: Landmælingar Íslands/Kieran Baxter.

    Þó að framhlaup, eldgos undir jökli og jökulhlaup hafi áhrif á stöðu einstakra jökulsporða hafa jöklabreytingar á Íslandi verið fremur samstíga og fylgt að mestu leyti veðurfarsbreytingum frá lokum 19. aldar. Flestir jöklar, sem ekki eru framhlaupsjöklar, hopuðu hratt frá upphafi sporðamælinganna fram yfir miðja 20. öld, í kjölfar hlýinda á fjórða áratug aldarinnar. Eftir 1940 dró úr hörfuninni samfara kólnandi veðurfari og margir jöklar fóru að ganga fram um 1970. Hlýnandi veðurfar eftir 1995 leiddi til þess að flestir jöklar fóru að hopa að nýju nokkru fyrir síðustu aldamót og síðustu árin hopa nær allir jökulsporðar.

      Framgangur og hörfun valinna skriðjökla með samfellda mæliröð frá upphafsárum sporðamælinga (www.islenskirjoklar.is).

      Þróun hita 1886 til 2022 (árs, sumar og vetur) frá 14 veðurstöðvum á Íslandi þar sem samfelldar mælingar hafa verið gerðar (www.loftslagsbreytingar.is).

      • Loftslagslíkön ná eingöngu að herma þá hlýnun sem varð á Íslandi og nærliggjandi svæðum á síðustu áratugum ef reiknað er með sögulegri aukningu gróðurhúsalofttegunda. Framtíð jökla landsins er mjög háð þróun loftslags og sjávarhita umhverfis landið. Samkvæmt líkanreikningum með ólíkum sviðsmyndum varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, munu jöklarnir halda áfram að rýrna hratt til loka þessarar aldar. En Vatnajökull mun lifa lengur og hyrfi ekki ef hlýnun er haldið innan ákveðinna marka.

        Ýmis konar fróðleik má finna á eftirfarandi síðum